Skip to main content

Ólöf Rún Tryggvadóttir, stofnandi heilsuvörulínunnar Eylíf er Klasabúi vikunnar.

Segðu okkur smá frá þér og hvað þú ert að bralla:

Ég er 57 ára, frumkvöðull, móðir og amma og hef verið í fyrirtækjarekstri sl. 14 ár.
Ég er lyfjatæknir og náði mér í BSc í viðskiptafræði frá HR þegar ég var fertug.
Ég hef verið í Sjávarklasanum frá nóvember 2018, þegar ég hóf undirbúning á Eylíf heilsuvörulínunni. Við byrjuðum að selja Eylíf í janúar 2020 á Íslandi.
Núna í dag erum við að undirbúa sölu á Eylíf erlendis. Salan á Íslandi gengur vel, vörurnar okkar hafa sannað gildi sitt, þannig að næsta skref er að selja erlendis.

Sérðu fyrir þér að fyrirtækið þitt komi til með að hafa jákvæð áhrif á samfélagið bæði hérlendis sem og á alþjóðavísu?

Já, því að við bjóðum upp á hrein íslensk hráefni frá sjálfbærum auðlindum, sem koma víða að frá Íslandi. Með því að kaupa hráefni og þjónustu innanlands þá erum við að efla sjálfbæra framleiðslu og samfélagið í heild.

Notast þú við einhverja málshætti eða tilvitnanir til að veita þér innblástur þegar þú stendur frammi fyrir hindrunum?

Já, mín daglega mantra er: “Something good is just about to happen”. Þá gleymast erfiðleikarnir og þú bíður eftir nýju og spennandi tækifæri, það er ótrúlegt hve vel þetta virkar.

Hvernig er að vera Klasabúi?

Það er algjörlega frábært. Hér er best að vera með frumkvöðlafyrirtæki. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt í gangi, hér er svo góð orka, frábært fólk og gott flæði.

Hefur það gagnast þér eða fyrirtæki þínu á einhvern hátt að vera hluti af Sjávarklasasamfélaginu?

Já, svo sannarlega, hér hafa skapast mörg tækifæri fyrir Eylíf og höfum við fengið að kynna vörulínuna fyrir mörgum hópum og merkum gestum og hef ég fengið að kynna Eylíf í London á viðburði með Sjávarklasanum. Eylíf var valið til að vera lokaverkefni hjá MBA-nemendum í HR, tengingin kom frá Sjávarklasanum. Einnig fékk ég tækifæri til að kynna Eylíf í heimildaþætti á þýsku ríkissjónvarpsstöðinni, í gegnum Sjávarklasann, þannig að hér er alltaf eitthvað spennandi í gangi. Öll kynning er góð, því það gæti eitthvað gott komið í framhaldinu.
Það er svo jákvæð orka hér í húsinu og það hefur gagnast okkur hjá Eylíf mjög mikið.

Hefur þú verið í einhverri samvinnu eða samstarfi með öðrum Klasabúa eða búum?

Já, hér eru tvö fyrirtæki sem við verslum hráefni af, Kalkþörungafélagið og Primex, svo hefur hún Lára hjá Indigo unnið fyrir Eylíf. Eins hefur það hjálpað okkur mikið að Þór Sigfússon er svo duglegur að lyfta frumkvöðlafyrirtækjunum upp á stall og tengja okkur við marga aðila. Það eru góðar tengingar hér, mikil flóra af fólki, maður þekkir mann og hafa nokkur vandamál verið leyst við kaffivélina.

Hvernig sérðu fyrir þér að efla samvinnu milli frumkvöðla á Íslandi?

Það væri gott að hafa reglulega viðburði, til að tengja frumkvöðla betur saman, það gæti verið t.d. fyrirlestur, kynning á frumkvöðlafyrirtækjum eþh. Það er svo mikilvægt að tengjast og styrkja hvort annað, því við getum alltaf lært, deilt reynslu og þekkingu til hvors annars.

Er erfitt að finna jafnvægi milli frumkvöðla- og einkalífs?

Nei, alls ekki. Mér finnst frábært að vera minn eiginn herra, að hafa þennan sveigjanleika er dýrmætt. Ég tek mér frí um helgar og á hátíðisdögum, en er samt alltaf með tölvupóstinn opinn alla daga.

Er eitthvað afrek eða árangur sem gerir þig sérstaklega stolta?

Fyrir utan mitt persónulega líf sem ég er mjög stolt og ánægð með þá er ég mjög þakklát fyrir hve vel Eylíf vörunum hefur verið tekið af íslenskum viðskiptavinum. Fólki líður betur af því að nota þær, þá er mínum tilgangi náð.

Að lokum: Er eitthvað sérstakt sem þú vilt kynna eða deila með okkur?

Já, það er svo ótrúlega margt hægt að gera með því að úthýsa verkefnum, til að spara kostnað, sérstaklega launakostnað. Ég byrjaði ein með Eylíf og var ein í 2,5 ár, úthýsti öllum þeim verkefnum sem ég gat ekki leyst sjálf, þannig komst Eylíf á markað.
Annað sem ég vil nefna; Ég brenn fyrir heilsutengdum málefnum og vil benda á að við erum öll okkar eigin heilsu- og gæfusmiðir. Það er á okkar ábyrgð að hugsa vel um heilsuna, því að heilsan er dýrmætust.
Sjá fréttina hér frá Sjávarklasanum.

Leave a Reply