Skip to main content

Mikilvægi svefns er nú í auknum mæli í umræðunni. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með Dr. Erlu Björnsdóttur, einum okkar fremsta sérfræðingi á sviði svefnrannsókna, hvernig hún nálgast viðfangsefnið og talar tæpitungulaust í allri sinni umfjöllun. Hún heldur úti heimasíðu um svefn og málefni því tengt.

Dr. Erla hefur stundað svefnrannsóknir og skrifað fjölda greina og bækur um svefn og áhrif hans á okkur en í doktorsnámi sínu rannsakaði hún svefnleysi, andlega líðan og lífsgæði hjá sjúklingum með kæfisvefn, athyglisvert ekki satt?

Í grein eftir Dr. Erlu sem við fundum á Svefnblogginu um svefn og íþróttafólk bendir hún  meðal annars á að svefnskortur geri það að verkum að líkaminn verði viðkvæmari fyrir ýmsum sjúkdómum, veikindum og meiðslum. Hún vekur athygli á að langtímaáhrif  svefnleysis hjá íþróttafólki geti stytt íþróttaferilinn um þriðjung út af auknum líkum á meiðslum þegar íþróttafólk sefur ekki nóg.[1]  
Þetta á við alla sem stunda íþróttir, hvort sem það er afreksíþróttafólk eða við hin sem stundum þær okkur til heilsubótar og almenns hreystis. Svefn er mikilvægur og mikill áhrifavaldur á okkur dags daglega, oft meira en okkur grunar.

Dr. Erla vitnar í rannsóknir máli sínu til stuðnings og í einni þeirra kemur fram að hjá íþróttamönnum séu svefnleysiseinkenni algengari en hjá öðrum. Sundurslitinn svefn, óendurnýjandi svefn og óhófleg þreytu á daginn eru fylgifiskar svefnleysis. Að sjálfsögðu er mikill munur á milli íþróttagreina (sem ekki var rannsakað sérstaklega í þessari rannsókn).  Í niðurstöðum eru síðan dregnar fram tvær ástæður fyrir íþróttatengdu svefnleysi en það eru æfingar seint á kvöldin og einfaldlega of lítill tími áætlaður fyrir svefn.[2]

Til að öðlast betri svefn, þá þurfum við að hægja á okkur á kvöldin, koma okkur í ró og undirbúa svefninn þannig að það verði auðveldara að sofna. Til að gera það þá mælir Dr. Erla með því að borða ekki þunga máltíð 4 klst fyrir svefn og nota ekki skjái síðustu 2 tímana fyrir svefn, þe. ekki vera í símanum, iPadinum eða tölvunni seint á kvöldin. Líkaminn okkar framleiðir hormónið melatonin á kvöldin, sem hægir á líkamsstarfseminni og undirbýr okkur fyrir svefninn.

Næring, vítamín og steinefni eru einnig talin hafa áhrif á svefngæði og er það helst D, E, C og B vítamín og magnesíum, sem talin eru hafa slík áhrif.[3] Hlutverk okkar hjá Eylíf er að bjóða upp á heilnæm vítamín með grunnefnum sem næst náttúrunni, þar liggur metnaður okkar og við sláum hvergi af í þeirri vegferð. Dr. Erla kemur inn á tengingu mataræðis og svefns hér á blogginu sínu, mjög fróðlegt að lesa.

Niðurstaða okkar er sú að það er sama hvers kyns íþróttir eða líkamsrækt þú stundar og á hvaða skala, svefn alltaf mikilvægur til að ná árangri. Og til að ná góðum svefni þarf að huga að svefnvenjum, næringu og vítamínbúskap.


[1] https://www.betrisvefn.is/blogg/hvers-vegna-er-svefn-mikilvaegur-fyrir-ithrottafolk/ (skoðað 15. janúar 2022)

[2] Gupta, Luke, Kevin Morgan, & Sarah Gilchrist. 2017. ‘Does Elite Sport Degrade Sleep Quality? A Systematic Review’. Sports Medicine (Auckland, N.Z.) 47(7):1317–33.

[3] https://thesleepdoctor.com/2019/02/12/5-vitamin-deficiencies-that-can-affect-your-sleep/ (skoðað 15. janúar 2022)